Kristján Pétur Sigurðsson opnar sýningu í vestursal Listasafnsins á Akureyri

large_kristjan-petur_vefur

Laugardaginn 31. janúar kl. 15 verður opnuð í vestursal Listasafnsins á Akureyri sýning Kristjáns Péturs Sigurðssonar, Þriggja radda þögn og Rauða. Á sýningunni gefur að líta skúlptúrinn Rauða Þögn, en sú þögn hefur ferðast víða og alltaf þráð að komast inn í listasafn, og mynd af tónverki þar sem þögn er útsett fyrir píanó og selló. Vegna þess að nostra þarf við þagnir mun ásýnd verksins taka daglegum breytingum á sýningartímanum. Á lokamínútum sýningarinnar mun Kristján Pétur rjúfa þögnina með söng.

Sýningin verður opin sunnudag, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag kl. 12-17. Henni lýkur formlega fimmtudaginn 5. febrúar kl. 15 með lokunarteiti.

Myndlistarferill Kristjáns Péturs Sigurðssonar hófst 1984 með samsýningunni Glerá ´84. Hann hefur haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Kristján hefur einnig gefið út fjölrit, þrjár kvæðabækur og nokkrar hljómplötur. Síðustu 10 ár var Kristján meðlimur í listsmiðjunni Populus tremula sem starfrækt var með blóma í kjallara Listasafnsins.

Sýningin er hluti af sýningaröð sem hófst 10. janúar og mun standa til 8. mars og inniheldur 8 vikulangar sýningar. Habby Osk og Brenton Alexander Smith hafa þegar sýnt og nú stendur yfir sýning Jónu Hlífar Halldórsdóttur, Hola í vinnslu. Aðrir sýnendur eru í tímaröð: Þóra Karlsdóttir, Joris Rademaker, Lárus H. List og Arnar Ómarsson.

http://www.listak.is

https://www.facebook.com/events/1378331485809622


Hundur í óskilum með Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi

large_hundur-i-oskilum_vefur

Þriðjudaginn 27. janúar kl. 17 heldur hljómsveitin Hundur í óskilum, skipuð þeim Hjörleifi Hjartarsyni og Eiríki Stephensen, fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Hundalógík. Þar munu þeir félagar velta fyrir sér Hundi í óskilum og hvort eitthvað sé á bak við hann.

Hundur í óskilum varð til í leikfélagspartíi á Dalvík fyrir 20 árum og ætlaði sér aldrei stóra hluti. Þrátt fyrir litlar væntingar í upphafi hefur hljómsveitin troðið upp við fjölbreyttar aðstæður beggja vegna Atlantsála, gefið út tvær plötur án þess að fara í stúdíó, haldið úti óskalagaþætti í útvarpi fyrir minnihlutahópa, haldið uppi innanlandsflugi Flugfélags Íslands, starfrækt tveggja manna leikhús og hlotið tvær grímur fyrir leikhústónlist en aldrei sungið í Frostrósum. 

Þetta er annar Þriðjudagsfyrirlestur ársins og sem fyrr fara þeir fram í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi á hverjum þriðjudegi kl. 17. Aðgangur er ókeypis.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Arnar Ómarsson, Pi Bartholdy, Margeir Dire Sigurðsson, Guðmundur Heiðar Frímannsson, Elísabet Ásgrímsdóttir, Katrín Erna Gunnarsdóttir, María Rut Dýrfjörð, Jón Páll Eyjólfsson og Hildur Friðriksdóttir.

Hér eru allir fyrirlestrarnir í tímaröð:

13.1. Jóna Hlíf Halldórsdóttir, myndlistarkona og formaður SÍM
27.1. Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson, Hundar í óskilum
3.2. Arnar Ómarsson, myndlistarmaður
10.2. Pi Bartholdy, ljósmyndari
17.2. Margeir Dire Sigurðsson, myndlistarmaður
24.2. Guðmundur Heiðar Frímannsson, heimspekiprófessor 
3.3. Elísabet Ásgeirsdóttir, myndlistarkona
10.3. Katrín Erna Gunnarsdóttir, myndlistarkona
17.3. María Rut Dýrfjörð, grafískur hönnuður
24.3. Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar
31.3. Hildur Friðriksdóttir, meistaranemi HA

http://listak.is/

https://www.facebook.com/events/414270212068620


Bloggfærslur 26. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband