Sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur í Flóru að ljúka

10382144_785981948099569_7308607194814067542_n

Kristín Gunnlaugsdóttir
14. júní - 17. ágúst 2014
Sýningarlok sunnudaginn 17. ágúst
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri
https://www.facebook.com/events/477137992432792

Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur í Flóru en henni lýkur sunnudaginn 17. ágúst 2014.
Kristín er fædd á Akureyri og stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri, MHÍ í Reykjavík og Accademia delle Belle Arti í Florence á Ítalíu. Hún er ein af okkar fremstu myndlistarmönnum og einkasýning hennar í Listasafni Íslands á síðasta ári hlaut verðskuldaða athygli. Fyrir þá sýningu fékk Kristín menningarverðlaun DV fyrr á þessu ári. Á sýningunni í Flóru eru fimm verk af þeirri sýningu ásamt nýjum teikningum.

Í bókinni Sköpunarverk sem kom út í tilefni sýningarinnar í Listasafni Íslands skrifar Halldór Björn Runólfsson:
“Styrkur Kristínar sem myndlistarmanns er endurnýjunarkrafturinn, hversu rækilega hún er tilbúin að taka sjálfa sig í gegn og koma þannig sér og öðrum á óvart án þess að slá af þeirri kröfu að nota sama efniviðinn og sömu aðferðirnar og áður; fást með öðrum orðum við þá tegund myndgerðar sem á rætur að rekja til kvennadyngjunnar og klausturlifnaðarins á miðöldum. Ekkert er eins djarft og afgerandi og það að brjóta gegn bannhelgi þessara luktu verkstæða þaðan sem ekkert kom sem ekki naut fullkominnar handleiðslu og blessunar andlegra eftirlitsafla, þeirra sjálfskipuðu siðavarða sem enn vaka yfir stórum hluta kvenna þessa heims, af því að þær eru svo útsettar fyrir óheppilegum refilstigum tilverunnar.
Kristín Gunnlaugsdóttir er með öðrum orðum ein þeirra örfáu listamanna okkar sem tilbúnir eru að hafa endaskipti á sjálfu sér svo þeir megi hitta okkur varnarlausa þegar minnst varir og við þörfnumst þess sem mest að vera slegin út af laginu.”


Nánari upplýsingar um verk Kristínar má finna á http://kristing.is
Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru alla daga kl. 10-18.

Næsta sýning í Flóru verður sýning Maríu Rutar Dýrfjörð “Eitthvað fallegt” sem opnar á Akureyrarvöku, laugardaginn 30. ágúst.

Flóra er verslun og viðburðastaður með vinnustofum sem Kristín Þóra Kjartansdóttur félagsfræðingur rekur. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Menningardagskrá Flóru hlaut styrk úr Menningarsjóði Akureyrar.


Valgerður Sólrún Sigfúsdóttir sýnir í Populus tremula

10410594_10152678864468081_2970290101103081371_n

Laugardaginn 16. ágúst kl. 12.00 opnar Valgerður Sólrún Sigfúsdóttir sýningu á handmáluðu postulíni í Populus tremula. Valgerður hefur lengi fengist við postulínsmálun og haldið fjölmörg námskeið og sölusýningar. Sjón er sögu ríkari. Athugið: lengri opnunartímar en venjulega.

Sýningin er einnig opin sunnudaginn 17. ágúst kl. 12.00-18.00. Aðeins þessi eina helgi.

https://www.facebook.com/events/1541935306030503
 


ANÍTA HIRLEKAR SÝNIR Í HVÍTSPÓA ART GALLERÝ

10525803_278445919024556_5068421912862795082_n

VERIÐ VELKOMIN Á OPNUN SÝNINGU ANÍTU HIRLEKAR Í HVÍTSPÓA ART GALLERÝ Á AKUREYRI
FIMMTUDAGINN 14. ÁGÚST KL. 20:00


Á sýningunni sýnir Aníta masterslínu sína úr Central Saint Martins í London.
Í línunni leikur Aníta sér að því að nota hefðbundnar handversk aðferðir á nútímalegan hátt
og er útkoman  listrænn glamúr með áherslu á óvenjulegar litasamsetningar, sterkan persónuleika og hreinar, kvenlegar línur. Á sýningunni má sjá átta alklæðnaði og eru allar flíkurnar handsaumaðar.

Aníta flutti frá Akureyri til London árið 2006 til að hefja nám í Central Saint Martins í London. Hún lauk BA gráðu árið 2012 í fatahönnun með áherslu á print og útskrifaðist með mastersgráðu árið 2014 með sérhæfingu í textíl.
Masterslína hennar var valin til sýninga  á London Fashion Week fyrir Haust/Vetur 2014.
Anita vann nýlega til virtra verðlauna fyrir línuna á International Talent Support á Italíu, sem er alþjóðleg keppni sem styður við unga hönnuði.
Aníta hefur víðtæka reynslu á sviði hönnunar og hefur m.a. starfað hja Diane Von Furstenberg og J Crew í New York, Christian Dior í París, Ashish Gupta í London og Diesel á Ítalíu. Einnig vinnur hún sjálfstætt fyrir ítalskt tískuhús sem listrænn ráðgjafi.
Fjallað hefur verið um hönnun Anítu m.a.  á Vogue UK, Style.com, Vogue Italia, I D magazine, Anothermag.com, Stylebubble, Showstudio.com og Elle UK.

https://www.facebook.com/events/1465495657041048
 


Bloggfærslur 11. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband