Þriðjudagsfyrirlestur í Ketilhúsinu: Giorgio Baruchello - Athugasemdir um mælskufræði og málverk

10432103_849872471701263_731653563721282783_n

Þriðjudaginn 2. desember kl. 17 heldur Giorgio Baruchello prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri fyrirlestur í Ketilhúsinu á Akureyri undir yfirskriftinni Athugasemdir um mælskufræði og málverk. Þar mun hann fjalla um hin ævagömlu en gleymdu tengsl milli mælskufræði og málverka og sýna fram á hvernig aðalhugtök mælskufræðinnar hafa verið notuð í sköpun listaverka og túlkun þeirra. Erindið er flutt á ensku en íslenskar þýðingar tæknilegra orða verða sýndar á glærum.  
Giorgio Baruchello lauk doktorsnámi í heimspeki frá Háskólanum í Guelph í Kanada. Meðal þess sem hann rannsakar er félagsheimspeki, kenningar um gildi og verðmæti og hugmyndasaga. Hann ritstýrir veftímaritinu Nordicum-Mediterraneum sem vistað er innan Háskólans á Akureyri.

Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem er sá tíundi í röð fyrirlestra sem haldnir eru í Ketilhúsinu á hverjum þriðjudegi kl. 17 undir yfirskriftinni Þriðjudagsfyrirlestrar.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.

http://listasafn.akureyri.is

https://www.facebook.com/events/1612473045646551


Hjördís Frímann sýnir í Gallerí LAK

1456721_883540731690720_5639006047332876336_n

Allir eru hjartanlega velkomnir á opnun Hjördísar Frímann í Gallerí LAK kl. 16.00, fimmtudaginn 27. nóv.


Lokaverkefni nemenda á Listnámsbraut VMA í Sal Myndlistarfélagsins

1506998_10152473677051417_1816135095880383406_n

Útskriftarsýning nemenda á listnámsbraut VMA í sal Myndlistafélagsins, Kaupvangsstræti 10, 600 Akureyri.

Sýningin heitir Hugarþel og er opnun á föstudagskvöldið 20-22 og sýningin er opin á laugardag og sunnudag 14-17.

12 útskriftarnemar með verk úr öllum áttum: textíll, myndlist, þrívíddarverk, vöruhönnun og vídeóverk.


Erwin van der Werve opnar sýningu í Flóru

63431_872252739472489_7467228285224169293_n

Erwin van der Werve
Innrömmuð rými
29. nóvember - 23. desember 2014
Opnun laugardaginn 29. nóvember kl. 14
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is/

Laugardaginn 29. nóvember kl. 14 opnar Erwin van der Werve sýninguna “Innrömmuð rými” í Flóru á Akureyri.

Erwin van der Werve er menntaður frá Willem de Kooning Academi í Rotterdam og útskrifaðist árið 2002. Hann var skiptinemi við Listaháskóla Íslands í Reykjavík árið 2001.
Hann hlaut startstipendium í Hollandi árið 2003 og er búin að starfa sem myndlistamaður upp frá því. Árið 2004 var hann með vinnustofu í Klink og Bank í Reykjavík. Eftir að hann lauk námi hefur hann búið á Íslandi, í Hollandi og Noregi og eftir dvöl í gestavinnustofunni í Listagilinu á Akureyri árið 2012 ákvað fjölskyldan að flytja til Akureyrar og hér hafa þau búið frá janúar á þessu ári. Erwin er nú með vinnustofu í Grasrót á Akureyri. Erwin hefur sýnt verk sín í Hollandi, Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi, Kína og á Íslandi.

Á sýningunni í Flóru mun Erwin sýna brot af rúmlega 600 teikningum og málverkum sem hann hefur unnið að síðastliðin 10 ár. Oftast vinnur Erwin með innsetningar í rými og þessar teikningar eru af landslagi eða mismunandi rýmum og ef til vill ekki svo ólíkar því þegar horft er út um glugga.

Nánari upplýsingar um verk Erwins van der Werve má finna á http://www.erwinvanderwerve.nl/
Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru fimmtudaga og föstudaga kl. 11-18 og laugardaga kl. 11-16. Sýningin stendur fram á Þorláksmessu, þriðjudaginn 23. desember 2014.


Flóra er verslun og viðburðastaður með vinnustofum sem Kristín Þóra Kjartansdóttur félagsfræðingur rekur. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Menningardagskrá Flóru hlaut styrk úr Menningarsjóði Akureyrar.

https://www.facebook.com/events/819199351454539

10177247_872252662805830_6325446797595989359_n

 


Eiríkur Arnar Magnússon sýnir í Populus tremula.

Eiri%CC%81kur-Arnar-29.11-web

Laugardaginn 29. nóvember kl. 14.00 mun Eiríkur Arnar Magnússon opna sýninguna Bækr voru í Populus tremula.

Eiríkur Arnar Magnússon (1975) er fæddur og uppalinn á Akureyri. Útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2007 og vinnur aðallega með bækur og málverk. Þetta er þriðja einkasýning hans.

Sýningin er einnig opin á sunnudag 30. nóvember frá kl 14.00-17.00.
Aðeins þessi eina helgi.

https://www.facebook.com/events/999302396752877


Stefán Boulter með Þriðjudagsfyrirlestur í Ketilhúsinu

StefanB

Þriðjudaginn 25. nóvember kl. 17 heldur listmálarinn Stefán Boulter fyrirlestur í Ketilhúsinu á Akureyri undir yfirskriftinni Handverk er hugmynd. Þar mun hann fjalla um sín eigin verk og vekja upp nokkrar áleitnar spurningar um listsköpun en Stefán hefur verið ötull talsmaður þess að sameina aftur handverk og hugmynd í listsköpun. Hann flokkar verk sín sem „kitsch“ en til að lýsa þeim á auðskiljanlegri hátt kallar hann þau einnig „ljóðrænt raunsæi“. Stefán nam myndlist í Bandaríkjunum, Ítalíu og Noregi og hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði á Íslandi og erlendis. Hann kennir við Myndlistaskólann á Akureyri.

Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem er sá níundi í röð fyrirlestra sem haldnir eru í Ketilhúsinu á hverjum þriðjudegi kl. 17 undir yfirskriftinni Þriðjudagsfyrirlestrar. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á næstu vikum tala Giorgio Baruchello og Kazuko Kizawa.

http://listasafn.akureyri.is

https://www.facebook.com/events/1612473045646551


In Love we trust í Gallerí Ískáp / Súper Öfundsjúkur Eiginmaður í Útibúinu

10797_526878247446622_5832594686744712546_n

In Love we trust:

“in God we trust” was adopted as the official motto of the United States in 1956.
It first appeared on U.S coins in 1864 and has appeared on paper currency since 1957.

23. Davíðssálmur

“ Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég langa ævi. “


Laugardaginn 22. nóvember, kl. 14:00 opnar Hekla Björt Helgadóttir, listrænn stjórnandi Geimdósarinnar, listamaður og skáld, sýninguna "In Love we trust" Í Gallerí Ískáp á vinnustofunum í Gilinu.

-------------------------------------------------------------------------------

Heiðdís Hólm og Jónína Björg Helgadóttir opna sýninguna "Súper Afbrýðissamur Eiginmaður" í Útibúi Gallerí Ískáps á sama tíma. Hann verður staðsettur einhversstaðar í Listagilinu, leitið og þér munuð finna!

Á "Súper Afbrýðissamur Eiginmaður" verður hugarástand afbrýðisams eiginmanns rannsakað, með sálfræðilegum og heimspekilegum aðferðum. Alls ekki siðferðislegum.


Aðeins þennan eina dag! Allir hjartanlega velkomnir!

Nánari upplýsingar veitir Heiðdís Hólm, í síma 848-2770 eða tölvupósti heiddis.holm hjá gmail.com

Kaupvangstræti 12, 600. Listasafnshúsið/gengið inn úr portinu fyrir ofan, baka til.

https://www.facebook.com/events/1566114643621304


Ívar Freyr Kárason opnar sýninguna Loftskip í Geimdósinni

10305594_533924923377495_7329593898417902377_n

Nú á laugardaginn 22. nóvember kl. 14, stígur Ívar Freyr Kárason í Geimdósina opnar sýninguna Loftskip.
Sýningin er unnin við samnefnt ljóð eftir Heklu Björt, með spraypaint tækni sem Ívar hefur þróað með sér um nokkurt skeið.
Ívar er á lokaári við grafíska hönnun í Myndlistaskólanum á Akureyri, en ver einnig tímanum á vinnustofu sinni Samlaginu, ásamt galvöskum hópi. Þar hefur hann velt mikið fyrir sér hugtakinu "ljót list", og setti sér það að hálfgerðu markmiði. Hér er áhugavert viðtal við kauða, þar sem hann talar meðal annars um hugmyndirnar sínar að baki ljótrar listar. http://www.felagi.is/is/frettir/frettir/getAllItems/14/listskopunarhatidin-homlulaus

Loftskip

Við vorum lök á loftskipum
strengd á milli mastra
en þöndumst ekki í storminum, eins og stolt segl
aðeins þunnar hræður á vindmiðum
sem varð okkur um megn

Svo flöktandi
með óráði
bárumst við
með bergmáli
á reikulum sporbaugum,
hverfulum glitsaumum
um náttblámans mistur og mána
og dreymdi að verða segl

Við vorum lök í álögum
frá rykföllnum tunglunum
og í húminu við heyrðum þau hvísla:

Undirlægjulök
fá engu að ráða
Undirlægjulök
fá aðeins að ráfa

því lök á loftskipum
þenjast ekki í storminum
og lök verða aldrei segl
og lök á vindmiðum
var allt sem við vorum
og það sem varð okkur um megn

- hekla 2011


Nú er að sjá... tekur Ívar sig til og opnar Dósina með ljótri list? Eða vandasamri fallegri list?
Hver dæmir fyrir sig, og því eru allir velkomnir í Geimdósina á laugardaginn klukkan 14:00 og þiggja list og veigar, ljótar eða fagrar.

one love

GEIMDÓSIN, Kaupvangsstræti 12. Listasafnshúsið/gengið inn úr portinu fyrir ofan, baka til.

https://www.facebook.com/events/377304789099191


Aðalfundur Myndlistarfélagsins

1460163_10152936168242268_5578681002953163879_n

 

Aðalfundur Myndlistarfélagsins verður haldinn í kvöld 19. nóvember kl. 20 í sal Myndlistarfélagsins, Kaupvangsstræti 10 á Akureyri. Vonumst til að sjá sem flesta.

https://www.facebook.com/events/594230827369314


70% ULL - 30% PLAST í Mjólkurbúðinni

10641070_677420382357338_2349118641521274628_n

Laugardaginn 22. nóvember kl. 14 opnar tvíeykið björgþorbjörg textíl sýninguna 70% ULL - 30% PLAST, 1. hluti í Mjólkurbúðinni í Listagilinu

Sýningin lítur til þess tíma þegar að flosa og smyrna var í tísku og á henni gefur að líta verk þar sem ull og bóluplast blandast saman á sérstæðan máta. Handavinna kvenna á síðkvöldum er tvíeykinu hugleikin þar sem ákveðin ró myndast við gerð hvers verks, vandamál leyst og ákvarðanir teknar. Hugarró eða hugarflug gæti því verið yfirskrift sýningarinnar eða einfaldlega: „Er einhver að FLOSA?“ Áhorfandans er valið
.
Björg Marta Gunnarsdóttir útskrifaðist sem fatahönnuður frá IED hönnunarskólanum í Barcelona og hóf störf sem hönnuður hjá tískufyrirtæki John Rocha í Dublin á Írlandi strax eftir útskrift þar sem hún starfaði í tvö ár.

Þorbjörg Halldórsdóttir hefur á síðustu tíu árum bæði haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum í formi innsetninga og gjörninga. Samstarf þeirra hófst fyrir nokkrum árum þegar Björg hannaði vörur fyrir búðina Frúin í Hamborg sem Þorbjörg rak á sínum tíma ásamt Guðrúnu Jónsdóttur.

Sýningin stendur yfir helgarnar 22.-23. og 29. 30. nóvember kl. 14-17.

2. hluti 70% ULL - 30% PLAST verður settur upp í Alþýðuhúsinu á Siglufirði á föstudaginn langa 2015.


WOOD YOU SEE WOOD YOU LISTEN í Populus tremula

988839_10152919188393081_2755188657422727641_n

Laugardaginn 22.11. kl. 14.00 munu Þorsteinn Gíslason og Kristján Pétur Sigurðsson frumsýna margra miðla verkið Wood you see Wood you listen í Populus tremula.
Verkið, sem unnið er fyrir tilstilli styrks frá Menningarráði Eyþings, er blanda skúlptús, vídeós og tónlistar.

Sýningin er einnig opin á sunnudag 23. nóvember frá kl 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi.


Rósa Kristín Júlíusdóttir flytur Þriðjudagsfyrirlestur í Ketilhúsinu

Rosa_Kalli

Þriðjudaginn 18. nóvember kl. 17 heldur myndlistarkonan- og kennarinn Rósa Kristín Júlíusdóttir fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Himintjöld og dansandi línur: Samvinna í listum og innsetning sem listræn menntunarrannsókn. Þar ætlar Rósa að tala um rannsókn sem hún gerði í samnorrænu og baltnesku verkefni og fjallar um listræna samvinnu hennar og Karls Guðmundssonar, mál- og hreyfihamlaðs listamanns, og annað tengt samtímalistum og menningu fatlaðra.

Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem er sá áttundi í röð fyrirlestra sem haldnir eru í Ketilhúsinu á hverjum þriðjudegi kl. 17 undir yfirskriftinni Þriðjudagsfyrirlestrar.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Stefán Boulter, Giorgio Baruchello og Kazuko Kizawa.

Hér eru allir fyrirlestrarnir í tímaröð:
30. sept. Angela Rawlings, skáld
7.okt. Arna Valsdóttir, myndlistarkona 
14. okt. Hlynur Helgason, listfræðingur
21. okt. Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, sýningarstjóri 
28. okt. Jón Gunnar Þórðarson, leikstóri 
4. nóv. Aðalsteinn Þórsson, myndlistarmaður 
11. nóv. Guðmundur Ármann Sigurjónsson, myndlistarmaður 
18. nóv. Rósa Júlíusdóttir, myndlistarkona og dósent við HA 
25. nóv. Stefán Boulter, myndlistarmaður  
2. des. Giorgio Baruchello, heimspekiprófessor
9. des. Kazuko Kizawa, myndlistakona

http://listasafn.akureyri.is

https://www.facebook.com/events/1612473045646551


Menningarsúpa í Grasrót

logo-menningarrad
Akureyrarstofa og  Menningarráð Eyþings í samvinnu við Grasrót- skapandi samfélag 
boðum til  MENNINGARSÚPU þriðjudaginn 18. Nóvember kl 11:30 – 13.
Fundarstaður er Grasrót – skapandi samfélag, Hjalteyrargötu 20. Gengið inn að austan.  
 
Efni fundarins:
Starfsemi Grasrótar – skapandi samfélags.
Sóley Björk Stefánsdóttir
....og gengið með áhugasama um króka og kima húsnæðisins í lok fundar. 
 
Creative Europe og innlendir menningarsjóðir
Ragnhildur Zoega frá Rannís
Ragnhildur býður fundarfólki viðtöl eða spjall í kjölfar fundarins.
 
Sjónlistamiðstöðin/Listasafnið á Akureyri og Listasumar
Hlynur Hallsson, safnstjóri.
 
Eins og áður er súpan á 1500 kr. sem greiðist á staðnum. Við nærum okkur um leið og við viðum að okkur upplýsingum.
 
Vinsamlegast staðfestið komu ykkar með því að hafa samband við okkur.
 
Ekki hika við að deila fundarboðinu til félaga sem mögulega hefðu áhuga á menningarsúpunni okkar.
 
Með afar góðri kveðju,
Kristín Sóley, Akureyrarstofu og Ragnheiður Jóna, Menningarráði Eyþings.

Hústaka í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

1390751_10204023127357118_7418766835077417196_n

Hústaka

Á undanförnum árum hafa ungir og skapandi einstaklingar nálgast hvern annan á listrænum forsendum, og alið með sér löngun til að láta að sér kveða í samfélaginu. Vitundarvakning ungs fólks gerir það að verkum að uppgangur er grasrótinni og þess vegna ætlar unglýðurinn með sinni einstölu elju efna til listahátíðar.

Hústaka er þverfagleg listahátíð ungs fólks sem haldin verður í Alþýðuhúsinu á Siglufirði 14. – 16. nóvember. Hugmyndin af hátíðinni spratt af þörf fyrir sýnileika sjálfstæðrar listsköpunar ungs fólks á svæðinu. Þátttakendur hafa fengist við listir af einhverjum toga í lengri eða skemmri tíma. Hústakan verður suðupottur þar sem listin blómstrar og ungu fólki gefst tækifæri á að koma hugmyndum sínum á farmfæri og hafa skapandi áhrif hvort á annað. Alþýðuhúsið verður lagt undir á frumlegan hátt og settar verða upp sýningar í hverjum krók og kima.
    Hústakan verður opnuð almenningi laugardaginn 15. nóvember frá kl. 14:00-20:00. Dagskráin saman stendur af myndlistarsýningum, lifandi tónlist, ljóðaupplestrum, gjörningum, vídjósýningum og skapaður verður vettvangur fyrir óvæntar uppákomur. Allir eru hjartanlega velkomnir!

Þátttakendur eru:
Úlfur Logason (myndlist, Akureyri)
Sólveig Matthildur (tónlist, Reykjavík)
Jón Arnar Kristjánsson (tónlist/myndlist, Dalvík)
Aldís Dagmar Erlingsdóttir (myndlist, Akureyri)
Áki Sebastian Frostason (tónlist, Akureyri)
Anne Balanant (vídjólist, Akureyri)
Hekla Björt Helgadóttir (ljóðlist, Akureyri)
Hreggviður Harðar og Hulduson (myndlist, Akureyri)
Diljá Björt Bjarmadóttir (vídjólist, Akureyri)
Axel Flóvent Daðason (tónlist, Akureyri)
Margrét Guðbrandsdóttir (myndlist, Akureyri)
Viðar Logi Kristinsson (ljósmyndun, Dalvík)
Lena Birgisdóttir (myndlist/ljóðlist, Akureyri)
Karólína Rós Ólafsdóttir (gjörningalist, Akureyri)
Borgný Finnsdóttir (myndlist/ljóðlist, Akureyri)
Halla Lilja Ármannsdóttir (myndlist, Akureyri)
Ástþór Árnason (myndlist, Siglufjörður)
Megan Auður Grímsdóttir (ljóðlist, Reykjavík)
Magnús Skúlason (tónlist, Reykjavík)
Ólöf Rún Benediktsdóttir (myndlist, Reykjavík)
Berglind Erna Tryggvadóttir (myndlist, Reykjavík)
Sólveig Salmon Gautadóttir (myndlist, Reykjavík)
Ólafur Sverrir Traustason (ljóðlist, Reykjavík)
Brák Jónsdóttir (myndlist, Akureyri)


Verkefnið er styrkt af;
Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Menningaráði Eyþings
Fiskbúð Siglufjarðar
Fjallabyggð

https://www.facebook.com/events/312542975606421/


Bræðrafundur og 179 tillögur í Mjólkurbúðinni

11408_10152417333292231_7594807765779087019_n

"Bræðrafundur" og "179 tillögur" nefnist sýning á verkum Gunnars Þorsteinssonar og Þorvaldar Þorsteinssonar í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri um næstu helgi 15.og 16.nóvember kl. 14-17.

Gunnar Þorsteinsson er um þessar mundir gestur í íbúð lista og fræðimanna í Davíðshúsi, húsi skáldsins Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Meðan á dvöl hans stendur setur Gunnar einnig upp myndlistasýningu í Mjólkurbúðinni í listagilinu, í gamla heimabæ sínum Akureyri. Á sýningunni vinnur hann með minningarbrotin og samstarf sitt og Þorvaldar bróður síns sem hann kallar "bræðrafund" og  "179 tillögur".

 Minningarbrotin

 

„Ég vil að við gerum listaverk saman,” sagði Þorvaldur bróðir minn þegar við kvöld eitt sátum saman í litla húsinu okkar Mjallar á Laugaveginum.

Ég leit með spurnarsvip á hann en sá við nánari athugun að honum var full alvara.

Eftir að hafa farið í huganum yfir helstu möguleika til að komast undan þessu, spurði ég:

„Og hvernig hafðir þú hugsað þér framkvæmdina á því?”

Hann hafði greinilega velt þessu fyrir sér, því hann svaraði að bragði:

„Við skrifum niður fyrstu minningar okkar og gerum síðan litlar myndir við minningar hvors annars.”

Ég gleymdi að andmæla eins og ég hafði ætlað mér því ég var þegar farinn að rifja upp mínar fyrstu minningar.

Eftir að hafa rætt fyrirkomulagið á þessu varð niðurstaðan sú að þetta yrðu örstuttar sögur sagðar af barninu eins og við mundum þessi minningarbrot. Nokkra daga gáfum við okkur til sögugerðar og ákváðum síðan að setjast niður næsta laugardag heima hjá honum og myndskreyta minningarbrot hvors annars.

Ég var 33 ára hann 10 árum yngri.

Kórinn
 
„Hvernig lýsi ég upp lok vetrar í Mið-Svíþjóð árið 2000?
Jú ég hringi í Þorvald bróðir og býð honum heim til okkar í Söderhamn.
Svo heppilega vildi til að hann átti að vera með Installation í Stokkhólmi um miðjan mars og ákvað ég að gera honum tilboð sem erfitt væri að hafna.
„Ég læt fyrirtækið mitt bjóða þér hingað til að auðga listalífið í bænum. Þú gerir einhverja Installation og heldur jafnvel fyrirlestur líka. Þetta gengur upp bókhaldslega séð ef ég ég læt Ventura borga þér líka.!”
„Svona þar fyrir utan, ég sakna þín.”
Í byrjun mars lýstist heimilið okkar upp af komu Þorvaldar.
Mikið var gaman og við fórum í spinn og um víðari völl en við höfðum gert lengi.
Hugmyndin um kórinn kom fullmótuð eitt kvöldið þegar við sátum og spjölluðum um heima og geima.
Daginn eftir hafði ég fengið 23 kórfélaga kórsins í bænum til að mæta upp degi síðar á ljósmyndastofu í bænum til myndatöku. Kjartan Einarsson ljósmyndari sem var nýfluttur í bæinn var meir en tilbúinn til að aðstoða.
Þetta varð einn af þessum dögum sem gengur ekki að gleyma.
Eins og Þorvaldi var svo lagið  fékk hann alla til að vera með og skapa stemmingu þar sem sameiginlega markmiðið var að gera þetta að mögnuðu verki.
Kórstjórinn varð að vísu súr smá stund þegar bara var tekin mynd af hnakkanum á honum. Því var kippt í liðinn með myndatöku framanfrá við einbeitta stjórnun hans.
Ég hafði útvegað sal í gamalli myllu og fjöldi fólks naut þess tveim dögum síðar þegar Þorvaldur fór á kostum í fyrirlestri um þróun eigin sköpunar.
Kórinn söng á veggnum.
Blaðamenn heyrðu bara það sem þeir vildu heyra og ákváðu að hér væri á ferðinni heimsfrægur ljósmyndari sem væri ótrúlegt að fá í “Lilla Söderhamn.”
Kvöldið áður en Þorvaldur fór til Stokkhólms spurði ég hann hvað hann ætlaði að gera á listasafninu.
„Ekki hugmynd, kannski eins gott að fara að hugsa um það.”
Hann sagði mér að þegar mikið lægi við færi hann í bernskuna eða veturinn í Barnaskóla Íslands þar sem hann kenndi einn vetur efir stúdentinn og sækti sér efni.
Eftir smá vangaveltur leystist þetta þegar mundi hann eftir leik sem hann, Pési Ring og fleiri höfðu oft leikið.
„Hver deyr flottast!”
Þetta varð stef sem hann síðar notaði og þróaði í mörgum verkum.

Sýningin stendur aðeins þessa einu helgi og eru allir velkomnir


Heimildarmynd um kínverska listamanninn Ai Wei Wei

11608_691373914292502_1451618878829981686_n

Mjög áhugaverð heimildarmynd um kínverska listamanninn Ai Wei Wei og hans verk sýnd í Grasrót sunnudaginn 16. nóvember kl. 20.30.

http://vimeo.com/18018860

Allir velkomnir.

Grasrót, Hjalteyrargötu 20, 600 Akureyri

https://www.facebook.com/events/312169982322211


Sólarbögglar: Opnun í Deiglunni laugardaginn 15. nóvember

Olalsfjordur_vefur2

Laugardaginn 15. nóvember kl. 15 verður opnuð í Deiglunni á Akureyri ljósmyndasýningin Sólarbögglar. Sýningin er samstarfsverkefni Listhúss í Fjallabyggð og Listasafnsins á Akureyri og á henni gefur að líta 30 ljósmyndir sem nemendur Verkmenntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Tröllaskaga tóku með nálarauga ljósmyndun (solargraphy). Listamennirnir Stanley Ng og Ceci Liu komu frá Hong Kong til Íslands í febrúar síðastliðnum með yfir 50 „pinhole“ myndavélar sem notaðar voru fyrir sýninguna. Slíkar myndavélar hafa örlítið ljósop, enga linsu og samanstanda vanalega af boxi með gati á einni hlið sem safnar ljósi frá umhverfinu og snýr því á hvolf. Af þeim sökum þarf langan lýsingartíma en allar myndirnar á sýningunni eru með lýsingartíma allt að tveimur mánuðum.

Listhús í Fjallabyggð er sjálfseignarstofnun sem rekur m.a. gestavinnustofur á Ólafsfirði og skipuleggur skiptinám í samvinnu við listamenn. Sýningin, sem er haldin með stuðningi Fotologue Culture í Hong Kong og Menningarráðs Eyþings, stendur til 7. desember og er opin þriðjudaga-sunnudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis.

http://listasafn.akureyri.is


Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson sýnir í Populus tremula

10686848_10152902640003081_5204243740722263815_n

BARA KASSAR
Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson

Laugardaginn 15. nóvember kl. 14.00 opnar Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson málverkasýninguna Bara kassar í Populus tremula. Sýnd verða akrýlmálverk á striga sem öll hafa verið máluð á þessu ári.

Sýningin er einnig opin sunnudaginn 16. nóvember kl. 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi.

https://www.facebook.com/events/293251284198349


Þriðjudagsfyrirlestur í Ketilhúsinu: Guðmundur Ármann Sigurjónsson - Að tína upp og miðla

1526706_839484102740100_3167171466000255501_n

Þriðjudaginn 11. nóvember kl. 17 heldur myndlistarmaðurinn og myndlistarkennarinn Guðmundur Ármann Sigurjónsson fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Að tína upp og miðla þar sem hann fjallar um 42 ára feril sinn í myndlist.
 
Guðmundur Ármann hefur starfað sem myndlistarmaður síðan hann lauk háskólanámi frá listaháskólanum Valand í Gautaborg í Svíþjóð árið 1972. Hann hefur haldið yfir 20 einkasýningar og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra samsýninga. Hann hóf kennsluferil sinn sem aðstoðarkennari í grafíkdeild Valand listaháskólans en lauk honum í vor eftir að hafa kennt við listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri í 14 ár. Árið 2012 lauk hann meistaranámi við Háskólann á Akureyri í kennslugreinum myndlistar og fjallaði lokaritgerðin um sjónmenningu og listnámskennslu við framhaldsskóla í Svíþjóð og á Íslandi.
 
Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem er sá sjöundi í röð fyrirlestra sem haldnir eru í Ketilhúsinu á hverjum þriðjudegi kl. 17 undir yfirskriftinni Þriðjudagsfyrirlestrar.
 
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Stefán Boulter, Rósa Júlíusdóttir, Giorgio Baruchello og Kazuko Kizawa.

http://listasafn.akureyri.is

https://www.facebook.com/events/1612473045646551


Sýningu Rakelar Sölvadóttur #1 í Deiglunni að ljúka

10354875_837550306266813_8277795955041796479_n

Síðustu dagar sýningar Rakelar Sölvadóttur #1 eru framundan en sýningin hefur staðið í Deiglunni síðan í september og lýkur næstkomandi sunnudag. Á sýningunni skoðar Rakel listrænt og samfélagslegt hlutverk fatahönnunar og snertir á yfirséðum flötum tísku og fatnaðar. 

Rakel Sölvadóttir útskrifaðist með BA gráðu frá fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands vorið 2013. Auk þess að starfa sem fatahönnuður hefur hún hannað sviðsmyndir fyrir tískusýningar og unnið að ýmiskonar innsetningum og samvinnulistaverkefnum. Rakel vinnur á skúlptúrískan hátt og með líkamann sem útgangspunkt notar hún form til að ýkja, brjóta upp eða afbyggja silhúettuna.

Sýningin stendur til 9. nóvember og er opin þriðjudaga – sunnudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis.

http://listasafn.akureyri.is


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband